Meðfæddir ónæmisgallar
Flest okkar hafa fengið vægar sýkingar sem við höfum að öllu jöfnu losað okkur við eftir minni háttar veikindi. Enn aðrir hafa gengið óskaddaðir í gegnum alvarlegri sýkingar eins og lungnabólgu og þá oftast þurft á læknisfræðilegri hjálp að halda í formi sýklalyfja eða stuðningsmeðferðar. Því miður er þessu ekki þannig farið hjá öllum. Í þessari grein verður fjallað um uppbyggingu ónæmiskerfisins og þá sjúkdóma sem einstaklingar með meðfædda ónæmisgalla (MÓG) þurfa að glíma við.
HVAÐ ER MEÐFÆDDUR ÓNÆMISGALLI ?
Í dag eru yfir 100 mismunandi gallar þekktir innan ónæmiskerfisins. Alvarleiki og sjúkdómsmynd hvers og eins fer eftir því innan hvaða starfseiningar ónæmiskerfisins bilunin er. Sumir þessara galla eru svo alvarlegir að þeir leiða til bráðs dauða strax á fyrstu mánuðum eftir fæðingu meðan aðrir uppgötvast ekki fyrr en á fullorðinsárum. Það sem flestir eiga þó sammerkt er aukin hætta á sýkingum.
Þannig fá einstaklingar með MÓG endurteknar sýkingar sem oft svara ekki hefðbundinni meðferð. Einnig geta skaðlitlir sýklar hjá einstaklingi með eðlilegt ónæmiskerfi valdið lífshættulegum sýkingum hjá barni með MÓG. Verða því foreldrar og læknar þessara barna að hafa allan varann á þegar einkenni sýkinga gera vart við sig.
Einnig hafa margir þessara einstaklinga aukna áhættu á því að fá astma og ofnæmi, sjálfsofnæmissjúkdóma (þ.m.t. suma gigtarsjúkdóma) eða krabbamein. Geta því sumri MÓG sjúkdómar lagst á mismunandi líffæri eins og húð, lungu, hjarta, meltingarveg eða taugakerfi.
Vegna mikilla framfara í greiningu og meðferð þessara sjúkdóma hafa lífslíkur einstaklinga með MÓG batnað mikið frá því sem áður var. Kemur þar bæði til beinskeyttari meðferð og betri árangur forvarna. Mörgum einstaklingum með skort á mótefnum er þannig haldið einkennalitlum með reglubundnu eftirliti og gjöf mótefna í æð eða undir húð. Einnig hefur gjöf boðefna ónæmiskerfisins sem efla ónæmissvar gegn ákveðnum sýklum gefið góðan árangur. Með réttri meðferð eru því möguleikar einstaklinga með MÓG til eðlilegs lífs margfalt betri en var fyrir fáum arum.
Engar upplýsingar eru til um fjölda einstaklinga með MÓG á Íslandi. Í Bandaríkjunum er áætlað að um 25-50.000 einstaklingar seú með alvarlega MÓG en um 5.000 í Bretlandi. Ef allir þekktir MÓG eru taldir eru þessar tölur mun hærri þar sem algegni hættuminni ónæmisgalla eins og IgA mótefnaskorts er mun hærra. Algengi IgA skorts hefur verið rannsakað meðal íslenskra blóðgjafa og reynst vera 1/572. Samkvæmt því ættu a.m.k. 490 Íslendingar að vera með MÓG vegna IgA skorts. Athyglisvert er að sumir einstaklingar með hættuminni ónæmisgalla, eins og IgA skort eru án sjúkdómseinkenna á meðan aðrir eru í vandræðum. Ástæður þessa eru ekki þekktar, en nú hafa verið hafnar rannsóknir á þessu hér á landi.
UNDIRRÓT OG TILURÐ MEÐFÆDDS ÓNÆMISGALLA
MÓG eru oftast arfgengir og erfast frá móður eða föður. Hafa þeir því orðið til vegna stökkbreytingar erfðavísis sameindarinnar sem gölluð er. Leiðir það til þess að starfsemi hennar raskast og sú starfseining sem sameindin/próteinið tilheyrir innan ónæmiskerfisins virkar ekki sem skyldi. Stundum hefur stökkbreyting gengið á milli kynslóða án þess að valda sjúkdómi. Þannig geta foreldrar og systkini verið arfberar sjúkdómsins án þess að hafa sjúkdómseinkenni sjálf. Einnig geta orðið til skyndilegar stökkbreytingar við fjölgun kynfruma án þess að slíkar breytingar finnist hjá foreldrum. Vegna þessa er ekki óalgengt að ákveðnir MÓG liggi í ættum og er því erfðaráðgjöf oft mikilvægur hluti af starfi lækna er sinna einstaklingum með MÓG.
Starfsemi ónæmiskerfisins getur einnig raskast í kjölfar utanaðkomandi áreitis. Geta bæði vírusar og sum lyf haft tímabundin eða varanleg lamandi áhrif á starfsemi þess. Þannig orsakast eyðni (AIDS) af völdum HIV veirunnar vegna dráps hennar á einni af lykilfrumum ónæmiskerfisins sem nefnist CD4 jákvæðar T-frumur. Hafa þessar frumur mikilvægu hlutverki að gegna við varnir líkamans og þá aðallega gegn veiru- og sveppasýkingum. Þetta eru þeir sjúkdómar sem leggjast hvað þyngst á einstaklinga með eyðnisjúkdóminn.
UPPBYGGING ÓNÆMISKERFISINS
Ónæmiskerfið samanstendur af flóknu samspili líffæra (hóstakirtils, beinmergs, eitla, milta, lifrar, slímhúða og húðar), fruma (eitilfrumur: B- og T- frumur, átfrumur og sýnifrumur) auk eggjahvítuefna (próteina) er mynda eina stafræna heild sem saman verja líkamann gegn fjandsamlegu áreiti, hvort heldur sem um sýkla eða verðandi krabbamein er að ræða.
Aðall ónæmiskerfisins er sértækni þess. Leiðir hún til þess að við höfum yfirleitt nærtækar frumur og/eða mótefni til þess að ráða niðurlögum sýkla er herja á okkur. Einnig leiðir ónæmissvarið til þess að í fyrsta skiptið sem það “sér” ákveðinn sýkil þá verður margföldun á fjölda þeirra frumna sem þekkja viðkomandi sýkil og mótefnasvarið verður beinskeyttara. Þegar viðkomandi fær síðan sama sýkilinn aftur þá verður seinna svarið margfalt öflugra en það fyrra. Hefur ónæmiskerfið þanig komið sér upp “minni” fyrir sýkingunni. Er þetta lykillinn fyrir því að hægt er að beita bólusetningum til að koma í veg fyrir alvarlegar bakteríu- eða veirusýkingar.
Eitlar og miltað eru aðalstarfsstöðvar ónæmiskerfisins. Á þessum stöðum eru sérhæfðar strýifrumur sem hafa því hlutverki að gegna að “matreiða” bæði sýkla og framandi efni þannig að eitilfrumur geti “séð” viðkomandi áreiti. Ef réttar forsendur eru fyrir hendi leiða þessi samskipti til eftirfarandi: Eitilfruman drepur vírussýktar frumur (sértækar dráps CD8+ T- frumur); eitilfruman fer að mynda mótefni (sértækar móterfnamyndandi B- frumur); eitilfruman hjálpar eða hvetur átfrumur til frekari dáða og/eða B- frumur til mótefnamyndunar (sértækar hjálpar CD4+ T- frumur); eitilfruman stoppar frekari bólgu svar (sértækar T- bæli frumur). Til ónæmiskerfisins tilheyrir einnig hópur próteina er nefnast komplement. Við sýkingu draga þau frumur ónæmiskerfisins að sýkingarsvæðinu og gera sýklana girnilegri og auðmeltanlegri fyrir átfrumurnar. Auk þess getur komplementakerfið valdið dauða sýktra frumna.
EINKENNI ER BENT GÆTU TIL ÓNÆMISGALLA
Endurteknar sýkingar
Fjölskyldusaga um MÓG
Slæmur astmi og ofnæmi
Slæmt exem
Sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdómar
Þar sem endurteknar sýkingar vekja oftast grun um MÓG hefur verið settur saman listi af bandarísku astma-, ofnæmis- og ónæmisfræðisamtökunum í samvinnu við bandaríska Rauða Krossinn (American Academy og Allergy, Asthma and Immunology, the American Red Cross) yfir 10 atriði í heilsufarssögu sem vekja ættu grundemdir um undirliggjandi MÓG sjúkdóm (sjá töflu)
NIÐURLAG
Mikið hefur áunnist í þekkingu okkar og meðferð á MÓG. Framfarir við beinmergsígræðslur hafa orðið til þess að mörgum ungbörnum er nú bjargað frá bráðum dauða. Einnig hefur verið hafin tilraunameðferð þar sem einstaklingum eru gefnar frumur sem hafa verið leiðréttar með “heilbrigðum” genum. Hefur nýleg rannsókn endurvakið vonir manna um að slík meðferð geti náð almennri fótfestu í meðferð þessara sjúkdóma. Mikilvægt er að koma á fót almennri skráningu á meðfæddum ónæmisgöllum. Hefur Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna í samstarfi við sjúklingasamtök einstaklinga með meðfædda ónæmisgalla hafist handa við skráningu allra einstaklinga með MÓG sjúkdóminn Chronic Granulomatous Disease innan Bandaríkjanna. Hefur það þegar leitt til betri og markvissari meðferðar einstaklinga. Auk þess hefur komið í ljós að sjúkdómurinn er algengari en áður var talið. Vonandi getur Astma- og ofnæmisfélagið á Íslandi haft forystu um að slíkri skráningu verði komið af stað hérlendis. Myndi slíkt örugglega leiða til aukinnar þekkingar okkar á meðfæddum ónæmisgöllum hér á landi.
Gagnlegar heimasíður um meðfædda ónæmisgalla:
http://www.nichd.nih.gov
http://www.niaid.gov
http://www.jmfworld.com
http://www.primaryimmune.org
http://www.pedpid.com
http://www.aaai.org
Dr.Med, Björn Rúnar Lúðvíksson, læknir og dósent í klínískri ónæmisfræði.
Rannsóknarstofu í Ónæmisfræði, LSH v/Hringbraut, 101 Reykjavík.